Arðgreiðsla úr þrotabúi Landsbankans

Icesave-samningarnar sem forseti Íslands hefur vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu ganga út frá því að gert verði upp við innistæðueigendur að mestu eða öllu leyti með eignum þrotabús Landsbankans. Skuld bankans við þá sem átti þar innstæður við fall hans er því kláruð af þrotabúinu sjálfu og þannig er tjón skattgreiðenda lágmarkað. Samningarnar kveða m.a. á um að hinn íslenski Tryggingarsjóður fái aðgang að eignum þrotabúsins til að standa skil á lágmarksinnstæðutryggingum. Fram að þessu hefur eingöngu verið krafa á sjóðinn en hann ekki haft aðgang að eignum til að gera upp málið.
Á viðskiptasíðu breska blaðsins Liverpool Daily Post í dag er frétt sem lætur lítið yfir sér. Vísir endurskrifar þessa frétt á viðskiptasíðu sinni í dag með þessum hætti: „Matvörukeðjan Iceland, sem er að stærstum hluta í eigu Landsbankans, ætlar að greið út 330 milljónir punda í arð, eða rúma 60 milljarða íslenskra króna. Skilanefnd Landsbankans fer með um 67% hlut í keðjunni og því kæmu rúmir 43 milljarðar í hlut bankans.“
Þetta er frekar látlaus frétt og látið lítið með hana. Enn þegar betur er að gáð er þó um allmerkilegt og stórt mál að ræða sem snertir okkur Íslendinga meira en margur kann að halda við fyrstu sýn.
Í stuttu máli þýðir þetta að við útgreiðslu arðsins fara 43 milljarðar í að greiða niður Icesave skuldina. Þessi verðmæta eign búsins aðstoðar því með afgerandi hætti við að klára Icesave málið.
Um síðustu áramót voru um 360 milljarðar komnir í hús hjá skilanefnd bankans, sem er talsvert yfir áætlun um heimtur og með ákvörðun um aðgreiðslur Iceland matvörukeðjunnar er sú upphæð komin yfir 400 milljarðar. Raunar má segja að heimtur bankans hafi farið fram úr björtustu vonum.  Innstæðutryggingasjóður fær afhentar kröfur upp 51% krafna í búið ef samkomulag Íslands, Bretlands og Hollands um lausn málsins verður staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hlutur innstæðutryggingasjóðs í arðgreiðslunni verður um 22 milljarðar ef af verður. Eins og menn muna eflaust gerir samkomulag þjóðanna ráð fyrir því að Icesave-ósóminn muni kosta okkur um 47 milljarða, hið mesta. Reyndar er niðurstaða samninganefndarinnar sú að ef allt gengur eftir sem spáð er muni eignir þrotabús Landsbankans greiða höfuðstól skuldarinnar að fullu og allt að 8 milljarða til viðbótar upp í vexti. Ef þetta reynist rétt borgum við ekki krónu fyrir Icesave. Borgum ekki leiðin er því samningaleiðin eins og hún liggur fyrir í dag.