Góður stuðningur í þjóðfélaginu við samningaleið í sjávarútvegi

Niðurstöður könnunar sem MMR gerði á afstöðu fólks til stjórna fiskveiða eru í takt við það sem áður hefur mælst í slíkum könnunum. Í nýlegri könnun sem MMR gerði fyrir LÍÚ um sama mál kemur fram að 68% kjósenda Samfylkingarinnar og 75,2% stuðningsmanna Vinstri grænna séu þeirrar skoðunar að sk. samningaleið verði farin við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Í heild voru 65,4% aðspurða á sama máli en 34,6% því andvígir.
Megin niðurstaða nýju MMR könnunarinnar er að 69,7% þeirra sem afstöðu tóki í málinu segjast vilja að þeir sem fá úthlutað aflaheimildum skuli greiða eiganda heimildanna (þjóðinni) gjald fyrir afnotin. Tveir þriðju aðspurða segist vilja að kvótinn (fiskistofnarnir) væru eign þjóðarinnar og nánast sama hlutfall vill að leikreglunum um stjórn fiskveiða verði breytt, aflaheimildir innkallaðar og úthlutað með nýjum hætti. Alls vilja 89% kjósenda vinstri grænna og 93% stuðningsmanna Samfylkingarinnar að veiðiheimildum verði úthlutað með breyttum hætti á meðan rétt um þriðjungur sjálfstæðismanna er á þeirri skoðun.
Niðurstaða þessara MMR kannana á afstöðu fólks til þessa mál ættu því að vera okkur hvatning til að halda áfram að vinna að þessum breytingum í samræmi við niðurstöður endurskoðunarnefndarinnar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði á sínum tíma, þ.e. að byggja nýja löggjöf um stjórn fiskveiða á sk. samningaleið.
Í stórum dráttum snýr hin sk. samningaleið að því að aflaheimildir verði innkallaðar og úthlutað að nýju með gjörbreyttum hætti auk þess sem auðlindagjald verði tekið af nýtingu fiskistofnanna. Til viðbótar þessu verður síðan ef af samningaleiðinni verður, aukið við hlut byggða- og félagslegra tengdra aðgerða með ýmsum hætti.
Skoðanakannanir benda því eindregið til þess að niðurstaða endurskoðunarhópsins hljóti yfirgnæfandi stuðnings í þjóðfélaginu og því hafi tekist vel upp við að uppfylla eitt af meginmarkmiðum starfshópsins, þ.e. að ná sem víðtækastri sátt um stjórn fiskveiða til langs tíma.
Það er árangur sem okkur ber að vinna úr og varðveita svo vel fari.