Atvinnuppbygging við Húsavík

Fréttir hafa borist af því að Landsvirkjun sé í viðræðum um nýtingu á jarðvarmaorku í Þingeyjarsýslum til metanóframleiðslu. Komið hefur fram í viðtölum við Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar að nýting orkunnar á svæðinu henti betur nokkrum smærri fyrirtækjum en einu stóru eins og hugur margra hefur staðið til fram að þessu. Að sögn forstjórans er Landsvirkjun nú þegar í viðræðum við fjóra til fimm aðila um nýtingu orkunnar á svæðinu og til standi að fjölga þeim talsvert. Hörður Arnarson bendir sömuleiðis á að mjög ólíklegt sé að 360 þúsund tonna álver rísi við Húsavík eins og rætt hefur verið um og því sé rétt að leita annarra leiða í þeim efnum ásamt því að það falli betur að stefnu fyrirtækisins um orkunýtingu og orkusölu.
Allt eru þetta góðar fréttir bæði fyrir íbúa á svæðinu, Landsvirkjun og landsmenn alla. Loksins er farið að ræða í alvöru um að fleiri tækifæri geti verið í stöðunni og ástæðulaust að forðast þau. Fari sem nú horfir mun orkan í Þingeyjarsýslum verða nýtt til margvíslegra nota sem mun jafnt leiða til þess að arður af orkusölu mun verða meiri en annars og ekki síður til þess auka á fjölbreytni í atvinnulífinu á svæðinu.
Það skýtur því talsvert skökku við þegar þingmaður óskar eftir skyndifundi í iðnaðarnefnd Alþingis til að ræða málið og þá á þeim nótum að áform Landsvirkjunar muni gera áform um atvinnuuppbyggingu við Húsavík að engu og þar með kippa fótunum undan atvinnusókn á svæðinu!
Það hefur einhver farið vitlausu megin fram úr daginn þann sem þetta erindi var sent.