Við borgum eins og venjulega

Stuttu eftir einkavæðingu íslensku bankanna seldi íslenska ríkið Landsbankanum landbúnaðarsjóð landbúnaðarins. Söluverðið var 2,7 milljarðar og rann andvirði sölunnar að stórum hluta til lífeyrissjóðs bænda en það sem eftir stóð, nokkuð hundruð milljónir, var ráðstafað með öðrum hætti að mestu af þáverandi landbúnaðarráðherra. Landsbankinn yfirtók eignir sjóðsins að verðmæti tæplega 14 milljarðar og skuldir á móti sem voru litlu lægri. Skuldirnar voru afhenta nýjum eigendum Landsbankans með ríkisábyrgð. Fleiri slíkar skuldir voru færðar inn í bankann með sama hætti. Engin áform voru í kaupsamningi bréfanna um að aflétta ríkisábyrgðinni og engin merki finnast um það í gögnum frá þessum tíma að slíkt hafi verið orðað við hina nýju eigendur. Með svipuðum hætti var farið með Iðnlánasjóðs sem Glitnir fékk í sínar hendur með áframhaldandi ríkisábyrgð. Þetta þýddi í rauninni að Landsbankinn fékk þarna í hendur skuldir lánasjóðs landbúnaðarins með fullri ríkisábyrgð og höndlaði með þau bréf að eigin vild og nú veit í rauninni enginn hver á þessi ríkistryggðu bréf. Á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun, Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneytinu fyrir helgina kom fram það samdóma álit allra þessara aðila að ekkert væri annað að gera en að gjaldfella þessa ríkisábyrgð í bókhaldi ríkisins. Ábyrgðin væri endanlega fallin á þjóðina og undan því yrði ekki vikist að hún verði að fullu greidd. Af þeim sökum féllu 25 milljarðar á íslensku þjóðina til viðbótar öðru, eins og það væri nú ekki nóg komið af því. Hvernig gat það gerst að æðstu stjórnendur landsins gátu verið svo hirðulausir og sinnulausir um hag þjóðarinnar sem þessi gjörningur vitnar um? Eða var þetta kannski hvorki sinnu- eða hirðuleysi heldur pólitískt stefna þess tíma? Á þessum tíma fólu þáverandi stjórnarflokkar tryggum og trúum flokksmönnum að reka íslensku bankanna. Þeir létu þá þeim í hendur með manni og mús og bættu svo um betur með því að henda í þá öllum lánasjóðum atvinnulífsins, með ríkisábyrgð og treystu þeim þannig óbeisluðum til að fara með öll þau mál sem þjóðin hafði farið með fram að þeim tíma.
Ríkisábyrgðin sem féll á þjóðina vegna fyrrum lánasjóðs landbúnaðarins er tvöfalt hærri þeirri upphæð sem Landsbanki Íslands var seldur á. Árið 2009 var afborgunin af láninu upp á kr. 2,4 milljarða og lítið eitt hærri í ár. Við munum þurfa að borga af þessum lánum langt inn í framtíðina eins og af öðru sem stjórnmálamenn þess tíma settu á herðar þjóðarinnar með dæmalaust vitlausri stjórnarstefnu sinni.
Guðni Ágústsson var Landbúnaðarráðherra á þessum tíma, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson var formaður framsóknarflokksins þegar þetta var gert. Þessir karlar bera öðrum fremur ábyrgð á því hvernig farið var með þessi mál og afleiðingum þess fyrir íslenski þjóðina.