Framsóknarmál af bestu gerð

Framsóknarþingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa lagt fram ákaflega merkilega tillögu á Alþingi. Hún snýr að því að Alþingi skipuð sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaki hvort einstakir þingmenn hafi átt einhvern þátt í búsáhaldabyltingunni veturinn 2008/2009 sem lauk með því að ein óhæfasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar hrökklaðist frá völdum með skömm. Markmiðið hjá framsókn virðist vera að finna sökudólga fyrir því að sú ríkisstjórn fór frá völdum en almennt hefur hinsvegar verið litið svo á hjá íbúum þessa lands að þakka beri fyrir það. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem framsókn misskilur þjóðina og varla í það síðasta heldur.
Það vekur sérstaka athygli að fyrsti flutningsmaður tillögunar um að rannsaka þátt þingmanna í búsahaldabyltingunni, Gunnar Bragi Sveinsson, greiddi í haust atkvæði gegn málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, Geir H Haarde, sem fólkið í landinu rak frá völdum í þeirri sömu byltingu. Nú vill hann hinsvegar finna þá sem hugsanlega urðu til þess að sjálfstæðisflokknum var vikið frá og draga það fólk til saka.
Á sínum tíma sprengdu Mývetningar stíflumannvirki Landsvirkjunar í Miðkvísl og sagt er að fleiri hafi gefið sig fram sem þátttakendur í verknaðinum en í raun hafi verið á staðnum vegna þess að verkið var gott og ágætt að vera við það kenndur.
Mín trú er sú að margir þingmenn vilji láta bendla sig við aðild að máli því sem framsóknarþingmennirnir leggja nú til að verði rannsakað og margir óski þess að verði minnst fyrir að hafa komið þeirri ómerkilegu hrunastjórn út úr stjórnarráðinu. Mikið vildi ég hafa verið á staðnum og hafa þannig orðið hluti af sögunni þegar almenningur tók í lurginn á ríkisvaldinu.
Það verður gaman að sjá hverjir verða kallaðir til vitnis í máli framsóknarþingmannanna. Mér dettur strax í hug nafn hins mikla pólitíska sjáanda Björns Bjarnasonar og jafnvel mætti segja mér að fleiri, þó ekki jafnokar hans, úr gamla valdaflokknum sem lagði grunninn að hruninu mikla, verði boðaðir í vitnatöku vegna málsins.
Þetta er framsóknarmál af bestu gerð!