Furðulegur fréttaflutningur Svavars Halldórssonar af vöxtum

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,75% í morgun og hafa vextir ekki verið lægri í sex ár. Svavar Halldórsson fréttamaður RÚV kaus að segja þannig frá vaxtalækkuninni í hádegisfréttunum í dag: „Þrátt fyrir að stýrivextir hafi ekki verið lægri í fjögur ár hefur þetta lítil áhrif á hag heimilanna, afborganir og verðlag.“ Í kjölfarið kom svo viðtal við hagfræðing ASÍ sem hélt allt öðru fram og sagði að auðvitað skipti vaxtalækkunin miklu máli fyrir almenning í landinu. Lægri vextir Seðlabankans hefðu fyrst og fremst áhrif á vexti á skammtímalánum, t.d. yfirdráttarvexti og síðan óverðtryggða vexti, m.a. þá sem hæstiréttur úrskurðaði á ólögleg gengistryggð lán og ekki síst skipti það máli varðandi atvinnulífið í landinu að vextir lækki eins og gerðist í dag. Hagfræðingur ASÍ bætti síðan við eftirfarandi: „Almennt séð getum við sagt að þetta hafi jákvæð áhrif á heimilin og fyrirtækin. Þetta stuðlar að því að atvinnulífið geti farið að komast í gang og vonandi skapa hér fleiri störf sem er auðvitað það sem skiptir heimilin öllu máli í núverandi ástandi. Þá kunni þetta að draga úr þörf fyrirtækja til þess að hækka verð (t.d. á matvöru og annarri nauðsynjavöru).”
Samkvæmt upplýsingum frá hagdeild ASÍ skulda heimilin í landinu lánastofnunum um 2.000 milljarða króna (tvö þúsund milljarða). Samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands má ætla að vaxtastigið í landinu verði um hálfu prósenti lægra en það var. Samkvæmt þessu ætti fjármagnskostnaður heimilanna í landinu að lækka um 10 milljarða króna sem er all nokkur upphæð og kemur til viðbótar þeim vaxtalækkunum sem þegar hafa orðið á undanförnum mánuðum. Svavari Halldórssyni fréttamanni á RÚV tekst samt sem áður að hefja frétt sína á því að fullyrða að þetta skipti heimilin í landinu litlu sem engi máli!! Hann lætur sig engu varða þó hagfræðingur heildarsamtaka launamanna haldi öðru fram og bendi á fjölmörg atriði sem koma heimilunum til góða í kjölfar lægri vaxta. Svavar Halldórsson heldur fast við sitt: Þetta hefur lítil áhrif á hag heimilanna í landinu, segir kappinn í fréttum RÚV án þess að færa nokkur rök fyrir þeirri fullyrðingu. Enda er hún röng, líkt og bent hefur verið á. Ætli Svavar Halldórsson muni leiðrétta sjálfan sig í hádegisfréttunum á morgun og flytja þjóðinni frétt af raunverulegum áhrifum vaxtalækkanna á hag heimila og atvinnulífsins í landinu?