Smá pælingar

Þann 1. janúar tók Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra við stöðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Þar með lauk 32 ára stjórnmálasögu Halldórs og þótti nú ekki mikil reisn yfir brotthvarfi hans af þeim vettvangi eins og fólk man. Norræna ráðherranefndin var sett á laggirnar árið 1971 og hefur þann tilgang að vinna að sameiginlegum lausnum sem hafa jákvæð áhrif og norrænt notagildi fyrir almenning á Norðurlöndunum, eins og segir á heimasíðu nefndarinnar. Forsætisráðherrar bera sameiginlega ábyrgð á samstarfi norrænu landann en hafa falið Norrænu samstarfsnefndinni að annast daglega samhæfingu opinbers samstarf landanna.
Í umræðum á Alþingi um þingsályktunartillögu þingmannanefndar um að kæra fyrrverandi ráðherra fyrir embættisverk sín, hefur talsvert verið lagt upp úr því að ekki náist til þeirra sem mestu ábyrgðina bera og eru þeir félagar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson þar nefndir oftar en aðrir.
En hvað finnst þingmönnum og almenningi um að annar þeirra sem oftast er nefndur sem einn af aðalhöfundum hrunsins skuli vera forsæti í opinberu samstarfi Norðurlandanna, í ljósi pólitískrar fortíðar sinnar? Hvað finnst ríkisstjórnum hinna landanna um hið sama? Því hefur verið haldið fram á Alþingi að þeir sem bera hina pólitísku ábyrgð hafi þegar tekið sína refsingu út með því að hverfa af Alþingi og frá opinberum störfum. Það á ekki við í tilfelli Halldórs Ásgrímssonar. Hann færði sig aðeins til í starfi innan samsteypunnar. Er kannski gengið of langt í uppgjörinu að ætlast til þess að nýtt fólk taki við af þeim sem ábyrgð bera á efnahagslegum óförum landsins?