Hættið þessu væli!

Þingmenn ræða nú skýrslu þingmannanefndarinnar á Alþingi og í fjölmiðlum. Eitt af því sem þingmenn sumir hverjir að minnsta kosti, kveinka sér undan er að þurfa að taka ákvörðun um málsmeðferð sem snertir samstarfsfólk þeirra á þingi, aðra þingmenn. Margrét Tryggvadóttir sagði ef ég man rétt í Kastljósinu í gær að það væri ekki leggjandi á þingmenn að taka ákvörðun um samstarfsfólk sitt, réttara hefði verið að útvista því verkefni og fá aðra til verksins. Það væri í raun ómannlegt að leggja það á þingmenn að taka ákvörðun um þess háttar mál og fleiri þingmenn hafa slegið svipaða tóna. Auðvitað er það erfitt að þurfa að taka á málum sem snertir samstarfsfólk og kann að ráða miklu um þeirra hagi. Um það er ekki deilt.
En er þetta ekki það sem er að gerast í þjóðfélaginu á svo til á hverjum degi með ýmsum hætti? Hvað gerir skólastjóri sem telur sig hafa rökstuttan grun um að kennari í skólanum hafi brotið að einhverju leiti gegn góðum starfsháttum, jafnvel brotið af sér eða sýnt vanrækslu í starfi? Hvað gerir verslunarstjóri sem hefur rökstuttan grun um að samstarfsmaður sinn hnupli vörum úr versluninni, veiti vinum og vandamönnum óeðlileg kjör eða nýti sér aðstöðu sína með ósæmilegum hætti? Hvað gerir útgerðarmaður sem telur að skipstjóri hafi sýnt af sér gáleysi í starfi, sett skip og áhöfn í óþarfa hættu eða verið staðin að ólöglegum veiðum? Svo mætti áfram telja.
Auðvitað er gripið til aðgerða og breytir þar engu hvort um samstarfsfólk eða kunningja er að ræða. Hverskonar samfélag yrði það sem aldrei tæki á aðsteðjandi vanda hverju sinni. Auðvitað getur það verið erfitt. Hver sagði að það yrði auðvelt að gera upp hrunið?
Þingmenn eiga að hætta að væla undan verkunum þó þau séu stundum strembin og gera þurfi meira en gott þykir. Ef þetta er of erfitt fyrir einhverja þingmenn eiga þeir að leita sér að léttara starfi þar sem ekki er hætta á því að þeir þurfi að taka erfiðar ákvarðanir.