Niðurstaða sem veldur vissum vonbrigðum

Niðurstaða þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur valdið vissum vonbrigðum þó margt megi þar gott finna. Niðurstaða nefndarinnar er einnig að mörgu leiti fyrirsjáanleg og fátt nýtt sem þar kemur fram. Enda var það ekki beint ætlunin að leita að nýjum flötum á skýrslu rannsóknarnefndarinnarað heldur að draga fram þau atriði sem snerta Alþingi með beinum hætti.
Í þingsályktunartillögu sem nefndin leggur fyrir Alþingi eru talin upp helstu tillögur nefndarinnar um hvernig rétt sé að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og eftirtalin atriði talin upp:   1. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.

  2. Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

  3. Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

  4. Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

  5. Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.

  6. Alþingi ályktar að eftirlitsstofnanir hafi brugðist.

  7. Alþingi ályktar að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. 

Um þetta má margt segja. Í fyrsta lagi hefur það legið fyrir nokkuð lengi að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé ágætur vitnisburður um það sem afvega fór og leiddi til efnahagshrunsins. Í öðru lagi hefur það blasað við hverjum manni að starfshættir Alþingis hafa áratugum saman verið þannig að brýt  sé að bæta þar úr. Í þriðja lagi er ljóst að þingið þarf að styrkja sína stöðu frá því sem verið hefur af augljósum ástæðum. Í fjórða lagi auðvitað verður að taka gagnrýni alvarlega og reyna að læra af henni. Í fimmta blasir það við að skýrsla rannsóknarnefndar er áfellisdómur yfir íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu. Í sjötta lagi gæti dauður maður komist að þeirri niðurstöðu að opinberar eftirlitsstofnanir brugðust eins og þingmannanefndin bendir á. Í sjöunda lagi verðum við auðvitað sem þjóð að læra af þessari sáru reynslu, þó það nú væri.
Öll þessi atriði eru augljós og hafa verið til umræðu í samfélaginu allt frá hruni og fengust staðfest með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eina atriðið sem ég er ekki alveg sammála í framangreindri upptalningu þingmannanefndarinnar er liður nr. 5 þar sem segir að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna beri mesta ábyrgð á því hvernig fór. Ég er þeirrar skoðunar íslenskri stjórnmálamenn beri ekki minni ábyrgð en stjórnendur bankanna. Bankarnir voru reknir innan þess regluverks og samkvæmt þeim leikreglum sem stjórnmálamenn settu þeim hverju sinni. Það voru íslenskir stjórnmálamenn sem afhentu tryggum flokksmönnum íslensku bankanna á sínum tíma og það voru íslenskir stjórnmálamenn sem drógu með skipulögðum hætti úr eftirliti með framferði þeirra og þróun efnahagslífsins allt fram yfir hrun. Þeirra ábyrgð er mest og þá ábyrgð þurfa þeir að axla.
Því er það þyngra en tárum taki að horfa upp á þingmenn þeirra stjórnmálaflokka sem mesta ábyrgð bera á efnahagshruninu, slá skjaldborg um sína gömlu forystu, reyna að koma þeim undan dómstólum og láta sem ábyrgð þeirra sé engin. En daprara er að hlusta á þá þingmenn sjálfstæðisflokksins reyna að draga úr trúverðugleika landsdóms, láta sem hann sé eitthvað gamalt hallærislegt apparat sem hafi enga stöðu í samfélaginu. Af hverju gerði enginn athugasemd við þetta þegar þingmannanefndin var skipuð? Hvers vegna efuðust þingmenn ekki um landsdóm fyrr en niðurstaða þingmannanefndarinnar blasti við?
Uppgjör við fortíðina er nauðsynleg og óumflýjanleg með öllu ef við ætlum á annað borð að læra eitthvað af reynslunni. Hlutverk stjórnmálamanna var svo yfirþyrmandi stórt í aðdraganda hrunsins að þá má ekki undanskilja með neinu móti.
Flokkspólitískar varnarlínur þingmannanefndarinnar eru hinsvegar til vitnis um að ekki sé ætlunin að draga nokkurn lærdóm af reynslunni eins og nefndin leggur þó sjálf til að þurfi að gera.
Fari svo sem horfir að þingið muni afgreiða þetta mál frá sér eftir þeim línum sem flokkarnir hafa dregið og sjá má í niðurstöðu nefndarinnar er það áfall fyrir þingið sem draga mun mjög úr trúverðugleika þess og er þó ekki orðið af miklu að taka þar. Þjóðin, íslenskur almenningur, sem mun bera þyngstu byrðarnar af efnahagshruninu mun vonandi ekki taka slíkum málalokum með þögninni einni saman.