Fulltrúar þjóðarinnar og handhafar sannleikans?

Þór Saari fer oft fram með sérkennilegum hætti svo ekki sé nú meira sagt. Hann (og reyndar hinir tveim þingmenn Hreyfingarinnra líka) líta á sig sem rétthafa sannleikans, handhafa samviskunnar og einu fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi. Þór og hans líkir hættir til að líta á þá sem ekki eru þeim sammála sem svikara við þjóðina, þeir gangi erinda vafasamra afla í þjóðfélaginu og því í rauninni ekkert annað en landráðamenn. Ummæli Þórs Saari á Alþingi í dag, hér og hér, eru af því tagi sem hér hefur verið rakið og dæmigerð fyrir þá sem forðast rökræðu um málefnin en fara þess í stað í manninn og gefi í skyn beint eða óbeint að annarlegar hvatir reki menn áfram frekar en annað. Við þessu er eiginlega ekkert að gera. Það er fátt um varnir gegn slíkum málflutningi og raunin reyndar sú að þeir sem fara fram með þessum hætti nærast á því að snúist sé til varnar. Því er oft best að láta menn eins og Þór Saari eiga sig, lofa ummælum þeirra að lifa, liggja í loftinu þeim jafnt til háðungar og skammar.