Klárum Icesave-málið núna

Þeir eru til sem halda því fram að íslendingar hagnist á hverjum degi á því að semja ekki um Icesave-skuldirnar sem sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig. Því er nánast haldið fram að peningarnir streymi í ríkissjóð vegna þeirra tafa sem hafa orðið á málinu. Með áframhaldi töfum mætti jafnvel ætla að Ísland verði ekki bara skuldlaust land eftir skamma hríð heldur í hópi auðugustu ríkja heims, ef marka má máflutning þeirra sem ekki vilja leiða málið til lykta. Svo eru þeir til sem telja að sá dráttur sem orðið hefur á lausn málsins hafi skaðað samfélagið, tafið endurreisn efnahagslífsins, skert lífskjör og hindrað atvinnusköpun. Í þeim hópi eru m.a. flest ef ekki öll samtök launþega og atvinnurekenda á landinu.
Nýlega barst okkur þingmönnum tölvupóstur frá framkvæmdastjóra eins af þekktustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins sem viðraði nokkur mál sem hann taldi nauðsynlegt að leyst yrði úr sem allra fyrst. Icesave-málið var þar efst á blaði. Um það segir framkvæmdastjórinn: „Nú er vonandi að skapast tækifæri til að klára þetta mál á næstu vikum. Við verðum að standa þétt saman um að þetta mál verði klárað núna. Það að þetta mál sé enn óklárað hefur skaðað útflutningsgreinarnar og atvinnulífið allt. Það hefur ekki verið tekið saman hve mikill sá kostnaður er orðinn en hann er án efa mun meiri en við gerum okkur grein fyrir á núverandi stundu.“
Því hefur verið haldið fram að kostnaðurinn við tafir á lausn Icesave-deilunnar hlaupi á tugum, jafnvel hundruðum milljarða króna þegar allt er til talið. Sá kostnaður er fyrst og síðast lagður á herðar íslensks almennings, launafólks, þeirra sem síst skildi. Ég ætla ekki að segja af eða á um hve kostnaðurinn er mikill en tek undir það sem framkvæmdastjórinn segir í tölvupósti sínum að hann er án efa mun meiri en flestir gera sér grein fyrir.
Ég fæ ekki með nokkru móti séð að íslenska þjóðin, íslenskur almenningur, heimili og fyrirtæki,  hafi gott af því að málinu sé haldið í því horfi sem það er í dag. Fyrir því eru engin haldbær rök. Þeirra ábyrgð er mikil sem hafa lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir lausn málsins og haft erindi sem erfiði.
Nú er kominn tími til að loka þessu máli, kalla það aftur inn á þing og samþykkja þann samning sem í boði er áður en málið versnar enn frekar, öllum til tjóns.