Gleðilegt nýtt fiskveiðiár!

Nýtt fiskveiðár hefst í dag 1. september. Það fór svo sem ekki mikið fyrir hátíðarhöldum af því tilefni frekra en oft áður. Þó er yfir ýmsu að fagna í sjávarútveginum sem ekki hefur verið áður. Verðmæti sjávarafla hefur stóraukist á undanförnu ári og afkoma fyrirtækja og sjómanna hefur batnað verulega. Sama á við um mörg sveitarfélög þar sem sjávarútvegurinn hefur mikið vægi í tekjum og almennum umsvifum. Okkur hefur gengið vel að nýta okkur nýja möguleika til að auka verðmæti sjávar líkt og veiðar á makríl bera vitni þó finna megi aðra hlið á því máli sem er okkur ekki endilega til framdráttar. Strandveiðar hleyptu nýju lífi í byggðir víða um land og skapaði störf og verðmæti sem annars hefðu ekki orðið til. Rækjuveiðar hafa gengið betur á nýliðnu ári en mörg undanfarin ár. Úthafskarfaveiðar gengu sömuleiðis vel í vor og veiðar á öðrum tegundum ekki síður. Auðvitað er ekki allt eins og best verður á kosið þó almennt sé ástandið gott. Úthlutun á veiðiheimildum í karfa á heimamiðum er t.d. verulegt áhyggjuefni og mun verða til mikilla vandræða mjög fljótlega ef ekki verður gripið til ráðstafana. Sömuleiðis eru átök um rækjuveiðar sem þarf að ná utan um og leiða til lykta og á ekki að þurfa að vera mikið mál að gera. Skuldastaða sjávarútvegsins er einnig mikið áhyggjuefni og staða margra fyrirtækja ótraust af þeim sökum.
Það er vel við hæfi að á þessum tímamótum skuli starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skuli nú vera að skila niðurstöðum sínum og leggja fram valkosti til úrbóta og framtíðarskipulags á stjórn fiskveiða. Góð sátt er að nást um megin niðurstöður þeirra mála líkt og ég hef alla tíð haft trú á að hægt væri að ná. Starfshópurinn mun skila niðurstöðum sínum á morgun og þá opinberast þær hugmyndir sem lagðar eru til í þeim efnum.
Almenn séð er bjartara yfir sjávarútveginum en oft áður þó greinin eigi við sín vandamál að glíma eins og oft áður.