ESB-umsókn

Mörður Árnason þingmaður Samfylkingarinnra skrifar pistil á bloggsíðu sinni um ESB-umsóknina. Hann er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi sem fyrst að afgreiða þingályktunartillögu sem borin hefur verið upp að Ísland dragi umsókn sína til baka. Ég er sammála Merði Árnasyni í þessu máli. Umrædd þingsályktunartillaga virðist njóta einhvers stuðnings á þinginu enda borin upp af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum nema Samfylkingar. Það var stór ákvörðun hjá Alþingi að samþykkja aðildarumsókn á síðasta ári og málið er umdeilt. Þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu sumir hverjir atkvæði með ályktunni á meðan aðrir sátu hjá eða lögðust gegn málinu. Sama var að segja um þingmenn míns flokks, Vinstri grænna. Besta leiðin til að leiða þetta mál til lykta er því að mínu mati að kanna að nýju álit þingsins á málinu. Aðeins þannig er hægt að binda enda á þetta tilgangslausa þvarg um málið sem er öllum til ama og leiðinda. Svona mál eiga að vera á hreinu, vilji Alþingsins á að vera algjörlega skýr. Það fer nægur tími til lítils í störfum þingsins svo við förum nú ekki að bæta þessu við. Ef uppi er rökstuddur grunur um að ákvörðun þingins frá því í fyrra hafi verið plat eða þingið hafi skipt um skoðun, þá á að henda málinu í hausinn þingmönnum aftur og láta þá klára málið. Ef málið fær endurnýjaðan stuðning, þá liggur það ljóst fyrir. Ef ekki, þá liggur það líka ljóst fyrir. Ég get hinsvegar ekki séð ástæðu til að blása þurfi til kosninga á hvorn veginn sem málið færi og er því ósammála félaga Merði um það.

Mín skoðun er hinsvegar óbreytt. Ég vil að þjóðin fái samning í hendur og ákveði sjálf framtíð sína hvað þetta varðar.