Menntaskólinn á Tröllaskaga

Í dag var Menntaskólinn á Tröllaskaga í Ólafsfirði settur í fyrsta skipti. Tilurð skólans á sér langan aðdraganda sem bæði var lengri og torsóttari en flestir töldum að yrði og um tíma leit út fyrir að framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð væri lítið annað en draumur sem ekki var ætlað að rætast. Því er heldur ekki að neita og rétt að halda því til haga að nokkurar tregðu hefur gætt við stofnun þessa skóla úr ýmsum áttum í gegnum árin, jafn innan skólasamfélagsins sem og á hinum pólitíska vettvangi. Í tvígang hefur ákvörðun um stofnun skólans verið slegið á frest um ótiltekin tíma, í bæði skiptin af menntamálaráðherrum sjálfstæðisflokksins. Það var því mikið fagnaðarefni þegar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra tók ákvörðun um stofnun skólans og skrifaði undir samkomulag þess efnis um miðjan mars 2009. Það er ekki sjálfsagt mál að stofna slíkan skóla í því efnahagslega árferði sem við búum nú við og því má segja að ákvörðun Katrínar hafi verið djörf en um leið yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja beri áherslu á menntun og þétta menntanetið um land allt sem lið í endurreisn Íslands.

Lára Stefánsdóttir skólameistari fór yfir helstu markmið skólans á setningarhátíðinni í dag og því námi sem í boði verður í skólanum. Menntaskólinn á Tröllaskaga mun bjóða upp á hefðbundið nám í félags- og náttúrvísindum en auk þess feta nýjar leiðir. Í því sambandi má nefna að í listabraut skólans verður lög áhersla á nám í listljósmyndum sem er nýjung í námi á framhaldsskólastigi hér á landi. Einnig býður skólinn upp á braut í fisktækni sem þróað verður í samvinnu við Fjölbrautarskóla Suðurnesja, nám sem Ólafur Jón Arnbjörnsson hefur verið að koma á framfæri af mikilli elju.

Menntaskólinn á Tröllaskaga bætist nú í hóp um 30 framahaldsskóla sem starfandi eru hér á landi. Miðað við þann hug og kraft sem greina mátti hjá starfsfólki og aðstandendum skólans í dag og það mikla starf  sem það hefur þegar innt af hendi til að gera skólann sem best úr garði er ég ekki í vafa um að Menntaskólinn á Tröllaskaga á sér glæsta framtíð. Skólinn verður nýr og góður valkostur fyrir þá sem vilja stunda nám í sterkum framhaldsskóla með fjölbreytt námsframboð. Nýr skóli, aðeins öðruvísi en samt eins.