Þorvaldur Gylfa Á Sprengisandi

Ég hlustaði á Þorvald Gylfason í þættinum Á sprengisandi á Bylgjunni í morgun fara yfir hinu ýmsu pólitísku mál með sínum hætti. Tvennt öðru fremur vakti athygli mína að heyra frá þessum annars væna og skemmtilega fræðimanni.

Í fyrsta lagi sagðist hann ekki sjá hvernig núverandi stjórnvöld ættu að geta komið saman fjárlögum í samræmi við samkomulag um endurreisn efnahagslífsins við AGS. Þetta er skrýtin yfirlýsing frá Þorvaldi. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur þegar unnið slík fjárlög (fyrir árið 2010) og lagt fram ítarlega áætlun um stjórn efnahagsmála næstu árin. Fjárlög ársins í ár eru á áætlun og reyndar að mestu leiti innan þess ramma sem settur var. Fjárlagafrumvarp næsta árs er unnið í samræmi við þá áætlun og samstarfi við AGS og er langt komið í vinnslu. Samkvæmt endurskoðun AGS á efnahagsmálum Íslands höfum við náð betri tökum á efnahagslífinu og fyrr en áætlað var. Allt bendir nú til að Ísland muni ná sér fyrr upp úr kreppunni en búist var við og skiptir þar mestu að vel hefur tekist upp við stjórn efnahagsmála. Efasemdir Þorvaldar Gylfasonar um getu núverandi stjórnvalda í þessum efnum eru því furðulegar.

Í öðru lagi sagði Þorvaldur það sæta furðu að Rannsóknarskýrsla Alþingis skuli ekki hafa verið þýdd yfir á ensku og gaf í skyn að það væri hluti af leyndarhyggju núverandi stjórnvalda. Hversvegna núverandi stjórnvöld ættu að leyna umheiminum því hvernig hægrimenn á Íslandi léku samfélagið og eyðilögðu trúverðuleika landsins, lét Þorvaldur hinsvegar ógert að útskýra. En hvað um það. Þorvaldur á hinsvegar að vita að það er þegar búið að þýða nokkra kafla skýrslunnar yfir á ensku eins og sjá má hér. Hinsvegar var kvartað yfir því að þýðingin hafði ekki verið boðin út og er Samkeppniseftirlitið nú með það mál til skoðunar eftir því sem ég best veit. Auðvitað á að þýða skýrsluna yfir á ensku, nema hvað. Það er hinsvegar mjög tímafrek vinna og vandasöm og verður ekki gerð á nokkrum vikum eða mánuðum svo vel verði. Að öðru leiti var gaman að hlusta á Þorvald Gylfason í morgun.

Hinsvegar er mér brugðið eftir að hafa hlustað á yfirgengilegan málflutning formanns sjálfstæðisflokksins síðar í þessum sama þætti. En það var svo sem ekki við öðru að búast úr þeirri áttinni.