Gæði strandveiðiafla

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf sagði í fréttum útvarpsins í dag að hluti af þeim strandveiðifiski sem fyrirtækið keypti til vinnslu sinnar hafi reynst ónýta vara þegar á erlendan markað var komið. Guðmundur spyr einnig hvort það sé vilji stjórnvalda að fara mörg ár aftur í tímann í gæðum og meðferð á fiski sem hann segir að fylgi strandveiðunum. Ég hef reyndar heyrt svipaða sögu frá fleiri fiskvinnslum sem styðja við frásögn Guðmundar um lélegt hráefni frá strandveiðibátum. Sé það raunin að fiskur úr strandveiðikerfinu sé verra hráefni en annarsstaðar verður auðvitað að bæta þar úr sem allra fyrst.

Strandveiðarnar hafa verið umdeildar og hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna lagst eindregið gegn veiðunum á meðan smábátaeigendur hafa stutt þessar veiðar. Fram til þessa hefur kvóti til strandveiða verið utan við aflamarkskerfið og því ekki komið til skerðingar hjá öðrum. Breyting verður hinsvegar á því á næsta fiskveiðiári þegar strandveiðikvótinn verður dregin frá áður en skipt aflamarksskipin fá sitt. Það þýðir að skip með aflaheimildir verður fyrir skerðingu sem nemur því sem látið er í starandveiðarnar. Ég hef fullan skilning á því að þeir sem starfa í aflamarkskerfinu séu ekki kátir með þessa ráðstöfun, hvort sem það eru sjómenn eða útgerðarmenn. Ég greiddi sjálfur einn stjórnarliða atkvæði með breytingartillögu minnihluta sjávarútvegsnefndar þess efnis að strandveiðikvótinn yrði utan við aflamarkskerfið eins og hingað til.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að gera eigi auknar kröfur til þeirra sem fá að nýta fiskistofnana í kringum landið. Það á við um strandveiðibáta sem önnur skip. Rétt er í þessu sambandi að minna á að breytingar sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða sl. vetur kveða m.a. á um heimild til að krefjast vinnsluskildu á uppsjávarveiðum til að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar. Að mínu mati á að gera auknar kröfur til þeirra sem fá heimild til að veiða fisk á Íslandsmiðum. Það á m.a. við um búnað skipa sem snýr að gæðum afla og nýtingu hans. Markmiðið með öllum breytingum á stjórn fiskveiða á alltaf að vera það að stíga skref fram á við, auka afla og verðmæta sköpun og vernda fiskistofna frá ofveiði.

Það er rétt sem fram kom hjá Guðmundi Kristjánssyni í fréttum útvarpsins að nú þurfi að líta yfir farin veg, kanna hvort og þá hvernig bæta má úr þeim ágöllum sem virðast vera í gæðamálum á fiski veiddum í strandveiðikerfinu. Það hljóta stjórnvöld að gera nú þegar strandveiðum er lokið í ár og gera breytingar til batnaðar áður en veiðar hefjast að nýju á næsta ári. Strandveiðar hafa hlyept nýji lífi í hafnir víða um land og aukið atvinnu sem hefur verið af skornum skammti. Þær mega þó ekki verða til að rýra gæði þess afla sem veiddur er innan kerfisins enda gengi það þvert gegn markmiðum um nýtingu sjávarafurða.