Gott ár hjá vel reknu fyrirtæki

Það hefur sjaldan þótt vel fallið til vinsælda að ræða vel um íslenskan sjávarútveg, sérstaklega þó ekki á vinstri væng stjórnmálanna. Ég hef aldrei skilið það almennilega og jafnan fengið að finna fyrir því þegar ég hef tjáð mig um greinina.
Hvað um það!
Ég hef mikið álit og áhuga á íslenskum sjávarútvegi, bæði útgerð, vinnslu og tengdum greinum. Útgerð þó sérstaklega. Síldarvinnslan hf. er eitt af mínum uppáhaldsfyrirtækjum og um það fyrirtæki hef ég skrifað af og til stutta pistla, t.d. hérhér og hér.
Þrátt fyrir að hagnaður Síldarvinnslunnar hafi minnkað nokkuð á milli ára, sem og tekjur af rekstri, var síðasta ár fyrirtækinu heilt yfir mjög gott. Hagnaður þess nam 3,5 milljörðum fyrir skatta, 2,9 milljarðar eftir 0,6 milljarða tekjuskatt og EBIDTA var 4,7 milljarðar. Skipin veiddu um 163 þúsund tonn af fiski og fyrirtækið skilaði 105 þúsundum tonna af afurðum frá sér á árinu. Fyrirtækið hélt áfram líkt og undanfarin ár að fjárfesta í nýjum skipum og áframhaldandi uppbyggingu í landvinnslu. Uppgangur Síldarvinnslunnar hf. á nokkrum undanförnum árum hefur líka að mörgu leyti verið ævintýralegur hvort sem um er að ræða aflabrögð eða verðmætaaukningu eins og sjá má hér á þessari umfjöllun.
Síldarvinnslan hf. er vel rekið og efnahagslega sterkt fyrirtæki sem gaman er að fylgjast með.