Full ástæða til að hafa áhyggjur

Umrótið innan verkalýðshreyfingarinnar virðist annað tveggja eiga rætur sínar að rekja til persónulegrar afstöðu formanns VR til Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og hins vegar til þeirra sem telja að kenna megi forystufólki verkalýðshreyfingarinnar, um bág kjör launafólks. Það er síður en svo nokkuð við það að athuga að forystuskipti verði hjá stéttarfélögum af og til en sé það á þessum forsendum verða undirstöður verkalýðshreyfingarinnar fljótt veikar. Það er áhyggjuefni að hlýða á málflutning þeirra sem telja að besta leiðin til að bæta kjör launafólks sé að hluta verkalýðshreyfinguna niður og reka stéttabaráttu á grunni persónulegrar óvildar í garð þeirra sem fyrir eru.
Slíkt mun aldrei verða neinum til framdráttar og full ástæða fyrir launafólk að vera á varðbergi gagnvart þeim sem þannig tala.