Kampavínsvísitala Þorsteins

Það er ekkert nýtt að Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, mæli hagsæld þjóðarinnar. Það gerði hann líka sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA bls. 27) ásamt núverandi formanni Viðreisnar. Nú telur Þorsteinn að ný ríkisstjórn hafi blásið til slíkrar veislu að kampavínsneysla muni ná fyrri hæðum frá dýrðardögum SA en nú reyndar á öðrum forsendum.
Reyndar er það svo að sala á kampavíni hér á landi jókst um 25% á þeim átta mánuðum sem Þorsteinn Víglundsson sat í ríkisstjórn. Sala á freyðivíni  á sama tíma sló öll fyrri met svo rækilega að 2007 bliknar í samanburðinum.
Ef svo fer að sala á kampavíni eykst vegna stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, líkt og Þorsteinn Víglundsson óttast, verður það vegna þess að fólk mun fagna því að efla á opinbera heilbrigðiskerfið, byggja nýjan Landspítala, snúa vörn í sókn í menntamálum, auknum vegaframkvæmdum og almennri uppbyggingu á mikilvægum innviðum samfélagsins.
Það voru aðrar ástæður fyrir freyðivínsmetári Þorsteins og félaga.