Mynd: Jón Óskar Forystuskipti urðu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ársbyrjun 2013 er Katrín Jakobsdóttir var kjörin formaður. Á sama tíma var ég kjörinn varaformaður Vinstri grænna og hef gegnt því embætti síðan. Frá þeim tíma hefur hreyfingin styrkt stöðu sína verulega og eru Vinstri græn í dag helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Er það ekki síst að þakka traustri forystu formannsins Katrínar Jakobsdóttur, öflugri sveit þing- og sveitarstjórnarmanna og sterkri málefnalegri stöðu Vinstri grænna.
Um helgina fer fram flokksráðsfundur Vinstri grænna og landsfundur hreyfingarinnar verður haldinn helgina 6. til 8. október næstkomandi. Á þessum tímapunkti tel ég rétt að lýsa því yfir að ég mun ekki gefa kost á mér til varaformennsku á komandi landsfundi. Ástæður þessa eru fremur einfaldar. Ég hef ákveðið að draga mig að mestu í hlé frá pólitískum störfum eftir áratuga afskipti af stjórnmálum, fyrst fyrir Alþýðubandalagið og síðar fyrir Vinstri græn. Þá tel ég mikilvægt að félagar í hreyfingunni hafi kost á að undirbúa framboð til varaformanns með góðum fyrirvara.
Sveitarstjórnakosningar verða á næsta ári og mun nýr varaformaður gegna mikilvægu hlutverki við undirbúning þeirra. Með sterka málefnastöðu og öfluga forystu geta Vinstri græn vænst þess að ná góðum árangri í kosningunum næsta vor.