Heildartekjur Síldarvinnslunnar og dótturfyrirtækja á árinu 2016 námu 18,4 milljörðum og gjöldin 13 milljarðar. Síldarvinnslan hagnaðist um 5,1 milljarð króna á síðasta ári. Fyrirtækið hélt áfram að fjárfesta í sjávarútvegi, líkt og gert hefur verið mörg undanfarin ár (dæmi – dæmi – dæmi - dæmi) og námu fjárfestingar Síldarvinnslunnar á síðasta ári um 2,6 milljörðum króna.
Fyrirtækið greiddi milljarð í tekjuskatt á árinu sem er heldur minna en starfsmenn þess gerðu og annan milljarð í veiðigjöld, ef rétt er skilið, sem nemur ríflega 5% af rekstrartekjum þess.
Fyrirtækið hefur endurnýjað nær allan flota sinn á stuttum tíma og hefur nú yfir afar öflugum og vel búnum skipum að ráða sem skiluðu um 138 þúsund tonnum að landi á síðasta ári. Vel á fjórða hundrað starfsmenn eru hjá fyrirtækinu og námu launagreiðslur þess um 3,8 milljörðum á síðasta ári. Samþykkt var á aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær að greiða eigendum fyrirtækisins 1,2 milljarð í arð.
Síldarvinnslan er gríðarlega öflugt fyrirtæki sem hefur verið í mikilli sókn síðustu árin. Efnahagur þess er gríðarlega sterkur og afkoma þess ótrúlega góð.