Stjórnarflokkarnir

Það hefur verið sagt að í þessari þriggja flokka ríkisstjórn séu bara tveir flokkar, þ.e. sjálfstæðisflokkurinn. Það er ekki alveg óvitlaust.
Ríkisstjórnarflokkar skuldbinda sig til samstarfs á grundvelli samkomulags þeirra á milli, stjórnarsáttmála. Það má því segja að flokkarnir setji eigin stefnu til hliðar um stund í skiptum fyrir sáttmálann. Þannig er þetta að öllu jöfnu en á ekki við um núverandi ríkisstjórnarflokka nema að hluta til. Bæði Viðreisn og Björt framtíð hafa vissulega tekið upp nýja stefnu á grundvelli samkomulags við sjálfstæðisflokkinn en sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu í öllum stærstu málum.
Ríkisstjórnin er samt sem áður ósamstíga í mörgum málum. En með stjórnarsáttmálann í vasanum eiga Viðreisn og Björt framtíð ekki marga leiki aðra en að fylgja móðurflokknum eða fella ríkisstjórnina. Það munu þeir ekki gera enda jafngilti það því að leggja þessa tvo flokka niður eins og staða þeirra er í dag. Hvorki Viðreisn né Björt framtíð munu því vilja slíta samstarfinu og ganga til kosninga. Samband stjórnarflokkanna er því nokkurs konar ofbeldissamband með sjálfstæðisflokkinn í hlutverki ofbeldisseggsins.
Það mun víst ekki vera mikil stemning í þingflokkum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og heyrst að einhverjir þingmenn í þeirra herbúðum hugsi sér til hreyfings í sumar, jafnvel hætta á þingi.
Sjálfstæðisflokkurinn er í allt annarri stöðu. Gangverkið í honum truflast lítið þótt kuskið af samstarfsflokkunum fari um tannhjólin. Það orð fer af formanni flokksins að hann sé latur, værukær og afslappaður og  líði vel í embætti forsætisráðherra. En hann stýrir ferðinni, er ótvíræður leiðtogi ríkisstjórnarinnar og enginn sem kemst nærri því að ógna stöðu hans. Það mun vera góð stemning í þingflokki sjálfstæðisflokksins sem virkar með sjálfstraustið í lagi. Það gæti þó breyst ef dómsmálaráðherra flokksins verður rekinn til baka með skipan dómara í Landsrétt. Gerist það þarf ráðherrann að víkja og ríkisstjórnin mun riða til falls.

Af þeim flokkum sem eiga sæti á þingi eru aðeins tveir í lagi, Vinstri græn annars vegar og sjálfstæðisflokkurinn hins vegar. Hinir fimm þjást allir af miklum innanmeinum, eru meira og minna í uppnámi og óstjórntækir.
Staðan í pólitíkinni er því þannig að ríkisstjórnin er ekki að fara frá. Hún situr þar til sjálfstæðisflokkurinn ákveður annað eða þar til Viðreisn og Björt framtíð endurheimta sjálfsvirðinguna. Það eru engin teikn á lofti um að það sé að gerast.  Ólíklegt er að einhver stjórnarandstöðuflokkanna muni ganga til liðs við stjórnina sem stendur. Það er þó ekki alveg útilokað.

Það munu einhverjar þreifingar eiga sér stað í sumar um að styrkja stjórnarsamstarfið.
Þær gætu jafnvel verið hafnar.