Stjórnarandstaðan

„Ríkisstjórnin er alveg feikilega veik og eini styrkur hennar felst í að stjórnarandstaðan er svo gjörsamlega sundurtætt.“
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor.

Það er margt til í þessu hjá Eiríki. Það ber þó að hafa í huga að ólíkt stjórnarflokkunum eru stjórnarandstöðuflokkarnir ekki bundnir af neinum sáttmála sín á milli og koma því ekki fram sem ein heild. Þeir eru ólíkir að upplagi og engum bundnir nema kjósendum sínum og stefnu. Það breytir því samt ekki að stjórnarandstaðan á þingi er heldur ólíkleg til afreka gegn veikri ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins.
En hver er innbyrðis staða stjórnarandstöðuflokkanna og hvers vegna nær stjórnarandstaðan ekki flugi?
Skoðum það aðeins.

Píratar:
Píratar virka óskipulagðir, ósamstíga, reikulir í stefnu, ótrúverðugir og afstaða þeirra til mála snýst oftar en ekki um form og leikreglur frekar en innihald. Í mínu umhverfi eru fáir ef nokkrir sem geta nefnt fleiri en 3 þingmenn Pírata á nafn. Það vantar alla pólitík í Pírata sem eru því ekki líklegir til stórræða.

Framsókn:
Framsóknarflokkurinn er í tætlum. Eftir að formaður flokksins vék úr stóli forsætisráðherra birtist hann okkur sem sá litlausi stjórnmálamaður sem hann áður var, auk þess sem hann virðist njóta takmarkaðs trausts innan flokks sem utan. Gamli formaðurinn er ótrúlega áhrifamikill í flokknum og er flestum góðhjörtuðum framsóknarmönnum mest til ama og leiðinda. Framsóknarflokkurinn líður fyrir hamaganginn í honum og mun ekki ná sér á strik með hann innanborðs. Framsókn á langt í land með að gera upp sín innanflokksmál og mun ekki verða í vegi ríkisstjórnarinnar á meðan.

Samfylkingin:
Vinstri græn gáfu Samfylkingunni líf þegar þau skáru flokkinn úr snöru sjálfstæðisflokksins í febrúar 2009. Samfylkingin fór illa með það líf og var á ystu mörkum þess að hverfa af þingi sl. haust. Það er enn tvísýnt um hvort flokkurinn muni lifa af eða hverfa þrátt fyrir ágætan og einlægan málflutning formanns og fyrrverandi formanns oft á tíðum. Þeirra bíður því að reyna að byggja upp nýjan flokk á rústum kosningaúrslitanna sl. haust. Það síðasta sem Samfylkingin þarf á að halda í dag eru kosningar og því er flokkurinn lítil fyrirstaða fyrir ríkisstjórn sjálfstæðisflokkinn.

Vinstri græn:
Vinstri græn eru eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem er með sín pólitísku innyfli í lagi. Þingflokkurinn er samstíga, skipulagður, vinnusamur og áberandi í þingstörfum. Vinstri græn eru nú að uppskera í könnunum fyrir að hafa látið steyta á stóru málunum í stjórnarmyndunarviðræðunum í haust, þ.e. heilbrigðis- mennta- og velferðarmálum, ólíkt öðrum flokkum. Hreyfingin býr að því að vera með formann sem nýtur trausts langt út fyrir raðir Vinstri grænna sem um leið gæti orðið þeirra helsti veikleiki ef ekki væri fyrir það hver formaðurinn er. Ef Vinstri græn halda vel á spöðunum gæti hreyfingin aukið fylgi sitt frekar en kannanir hafa verið að gefa til kynna og skapa sér stöðu sem ráðandi afl í íslenskum stjórmálum. Til þess þurfa Vinstri græn að dýpka stefnu sína í ákveðnum málaflokkum og nýta sér vel tómarúmið sem aðrir flokkar hafa skilið eftir sig. Vinstri græn eru í góðum færum til að gera góða hluti.