Lítið mál ef viljinn er til verksins

Ríkisstjórn sjálfstæðisflokks, viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur á fyrstu hundrað dögum sínum náð að skrá sig á spjöld sögunnar sem versta ríkisstjórn lýðveldisins. Á þessum tíma hafa ráðherrar hennar og fylgdarlið gengið sérhagsmunum blygðunarlaust á hönd á kostnað almannahagsmuna. Ríkisstjórnin og hennar lið virðast staðráðin í að knésetja velferðar- og menntakerfið í landinu. Heilbrigðiskerfið á Íslandi er að hruni komið á sama tíma og ráðherrar berja sér á brjóst og hæla sér yfir einum mesta hagvexti sem mælist í heiminum. Auðmönnum og stórfyrirtækjum er komið undan því að greiða sanngjarnan hlut í samneysluna. Mörg þúsund Íslendingar búa við sára fátækt. Ungt fólk á ekki möguleika á að komast í eigið húsnæði eða leiguhúsnæði án foreldraaðstoðar.
Ríkisstjórn ríka fólksins virðist auðvelt að ná sínu fram þótt hún hafi aðeins eins manns meirihluta á þingi og jafnvel þótt nokkrir þingmenn stjórnarliðsins styðji ekki fjölda mála hennar. Þessi vonda ríkisstjórn mætir ekki þeirri pólitísku andstöðu sem hún verðskuldar að fá, hvorki innan þings né utan. Það þarf að breytast. Það eru hagsmunir okkar allra að koma í veg fyrir að stefnumál ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. Þau stríða gegn heilbrigðri skynsemi og ganga gegn hagsmunum almennings. Það á að vera skýlaus krafa alls almennings í landinu að ríkisstjórnin fari frá. Það er kjaramál, það er réttlætismál og varðar velferð okkar til framtíðar að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.
Í dag, 1. maí á baráttudegi verkamanna, ættum við að heita okkur því að innan mánaðar munum við fella og koma frá völdum ríkisstjórn þeirra Bjarna Benediktssonar, Benedikts Jóhannessonar og Óttars Proppé.
Það er lítið mál ef viljinn er til verksins.