Veðmálið um Ísland

Fjármálaráðherra fagnar mjög að erlendir hrægammasjóðir (nú kallaðir fjárfestingarsjóðir) skuli veðja á Ísland með fjárfestingum sínum. Og þeim liggur á. En um hvað snýst þetta veðmál og um hvað er veðjað?
Í stuttu máli er ekki að sjá að nokkrir nýir fjárfestar með nýja peninga séu að koma inn sem eigendur Arion banka. Núverandi eigendur virðast vera að færa peninga úr einum vasa í annan, breyta eignarhlut sínum úr því að vera óbeinn í gegnum Kaupþing (Kaupskil), sem er stærsti eigandi Arion banka, í virkan eignarhlut. Með þessu koma þeir einnig í veg fyrir að íslenska ríkið geti eignast bankann.
Veðmál erlendu vogunarsjóðanna snýst um að þeir muni hagnast mun meira á því til styttri tíma að taka bankann yfir með þessum hætti en ef staða bankans hefði verið óbreytt eða þá að ríkið eignaðist hann. Þeir veðja á krónuna (og munu gera sitt til að staðsetja hana sér í hag) og þeir veðja á ríkisstjórn sem veitir þeim öruggt efnahagslegt skjól og hefur skilning á þörfum þeirra.
Engir þeirra sem nú fronta kaupin í Arion banka eru líklegir til að eiga hluti sína í bankanum til lengri tíma. Þeir veðja á skammtímagróða hér eftir sem hingað til. Það er þeirra hlutverk og eðli.
Veðmálið um Ísland er enn í fullum gangi.