Alvarleg mál sem þarf að bregðast við

Það er hárrétt sem Þór Sigfússon segir. Neytendur í útlöndum urðu ekkert sérstaklega varir við skort á íslenskum fiski á meðan á verkfalli sjómanna stóð. Þeir fengu einfaldlega fisk frá öðrum löndum á meðan og sættu sig við það án þess að kvarta.
Erlendir söluaðilar fundu hins vegar fyrir verkfallinu og skorti á fiski frá Íslandi. Það kom í þeirra hlut að sjá neytendum fyrir fiski og það gerðu þeir með því að fá hann annars staðar frá.
Samkvæmt því sem lesa má í erlendum fjölmiðlum í dag er ástæða til að hafa áhyggjur af langtímaáhrifum verkfallsins hvað þetta varðar. Erlendir kaupendur eru tortryggnir gagnvart Íslandi og viðskiptum við íslensk fyrirtæki. Það kann að leiða til þess að þeir muni í auknum mæli treysta á að aðrar þjóðir sjái þeim fyrir fiski.
Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan sjávarútveg og bendir til þess að vægi íslenskra sjávarafurða hjá erlendum neytendum sé ofmetið. Þeir vilji einfaldlega bara fisk og geri sér ekki mikla rellu út af því hvort hann komi af Íslandsmiðum eða annars staðar frá.
Það er mikilvægt að stjórnvöld taki höndum saman við sjávarútveginn, greinina alla við að ná til erlendra neytenda og treysta vægi íslenskra sjávarafurða erlendis.
Það er mikið í húfi fyrir okkur öll.