Stefnt að mestu einkavæðingu Íslandssögunnar

Fjármálaráðherra birti í gær drög að eigendastefnu ríkisstjórnarflokkanna fyrir fjármálafyrirtæki. Í fljótu bragði finn ég umfjöllun um þessa stefnu í tveimur fjölmiðlum, annars vegar á RÚV og hins vegar á Kjarnanum. Ég hef enn ekki heyrt eða séð viðbrögð stjórnmálamanna við þessum drögum í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Sem er stórmerkilegt því að í eigendastefnunni er lagt til stórfelldari einkavæðingu en við höfum nokkru sinni áður upplifað á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Í stuttu máli leggja ríkisstjórnarflokkarnir til að ríkið selji alla eign sína í fjármálafyrirtækjum að undanskildum 30-40% hlut í Landsbankanum. Salan á bönkunum á að fara fram um leið og færi til þess gefst. Þó skal stefnt að því að selja hlut ríkisins í Arion banka fyrir lok janúar 2018, það er eftir tæplega eitt ár. Engin rök eru færð fram fyrir því frekar en annarri sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Engin áform virðast uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að koma bönkunum og bankakerfinu fyrst í skaplegt form áður en selt verður að hluta eða öllu leyti. Hvergi er minnst á að aðskilja viðskipta- og fjárfestingarhluta fjármálakerfisins. Ekki virðist lagt upp með að aðskilja innlenda og erlenda starfsemi. Engin áform eru uppi um að sameina banka eða fækka þeim áður en þeir verða seldir. Framtíðarskipulag bankakerfisins verður sett í hendur einkaaðila ef stefna ríkisstjórnarflokkanna nær fram að ganga.
Planið er einfaldlega að einkavæða bankakerfið eins og það leggur sig og selja það þeim sem hafa á því efni. Við vitum hverjir það eru.
Ríkisstjórnin sem ætlar að einkavæða allt fjármálakerfið er með minnihluta atkvæða á bak við sig og með eins manns meirihluta á þingi. Hún hefur því ekkert umboð til þeirra verka sem lýst er í eigendastefnunni sem yrði mesta einkavæðing Íslandssögunnar.
Nú reynir á stjórnarandstöðuna.