Allt samkvæmt bókinni

Það er í lagi að nýta náttúrufyrirbæri eins og það sem varð til þarna (Bláa lónið) - og hefði auðvitað aldrei staðist umhverfismat miðað við nútímakröfur - að nýta það í viðskiptalegum tilgangi og taka fyrir það gjald.“
Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins.

Það er greinilegt í hvað stefnir með nýtingu náttúruauðlinda og rekstur náttúruperla á Íslandi. Formaður sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra var t.d. mjög afdráttarlaus í sinni skoðun á málinu í Viðskiptablaðinu um áramótin. Undir það hefur svo nýr ferðamálaráðherra tekið sem segist ekki sjá neitt að því að einkafyrirtæki sjái um rekstur og fari með umsjón sameiginlegra náttúruperla og auðlinda.
Úr þessum pólitíska jarðvegi spretta svo eðlilega upp aðilar sem sjá sér akk í því að sækja inn á þennan nýja einkamarkað sem nýting sameiginlegra auðlinda og viðkvæmra náttúruperla er að verða. Röksemdarfærslan er líka kunnugleg: „Það hefur verið talað um uppbyggingu ferðamannastaða undanfarin ár. En það gerist ekki nógu mikið og við sjáum þarna tækifæri sem við ætlum að reyna að nýta í samstarfi við landeigendur og stuðla að uppbyggingu strax.“
Í stuttu máli: Ríkið heldur að sér höndum og því verða einkaaðilar að redda málunum.
Allt samkvæmt bókinni.