Menn eða mýs?

Meisam Rafiei, íslenskum ríkisborgara og landsliðsmanni í Teakwondo, var vísað úr vél WOW í gær og meinað að ferðast til Bandaríkjanna á grundvelli þess að hann fæddist í Íran. Það er sem sagt að gerast á Íslandi að fólk er leitt út úr íslenskum flugvélum að kröfu erlends ríkis sökum þess hvaðan það er upprunnið.
Þetta er algjörlega óboðlegt og óhugnanlegt í alla staði.
Íslensk stjórnvöld hljóta að boða sendiherra Bandaríkjanna (eða staðgengil hans) á sinn fund og mótmæla harðlega og af myndugleika. Sendiherra Íslands í Washington hlýtur að vera kallaður heim til fundar við stjórnvöld af þessum sökum og almennt vegna þess ástands sem er að myndast í Bandaríkjunum og reyndar um allan heim í kjölfar rasískra stjórnarhátta nýs forseta þar vestra. Við hljótum að spyrja okkur þess hvort við eigum yfir höfuð samleið með þjóðum sem ganga fram með þeim hætti sem bandarísk stjórnvöld nú gera á mörgum sviðum.
Í sjálfu sér breytir það engu hvort um íslenskan ríkisborgara er að ræða, íranskan, breskan eða hvaðan sem er úr heiminum. Við megum aldrei láta það óátalið þegar fólki er mismunað á grundvelli uppruna síns, trúar eða kynferðis. Þjóðir heims verða að rísa upp og berjast af fullu afli gegn hættunni sem stafar af Donald Trump og hans fylgihnöttum áður en það verður of seint.
Íslendingar og íslensk stjórnvöld eru þar ekki undanskilin.
Annaðhvort erum við menn eða mýs.