Ólundarstjórn

Mér er til efs að áður hafi verið mynduð ríkisstjórn hér á landi af jafn miklu áhugaleysi og sú sem nú er í smíðum. Það virðist hreinlega ekki nokkur maður vera ánægður með afurðina. Það vekur athygli að formenn flokkanna þriggja halda spilunum þétt að sér og forðast að upplýsa bakland sitt um þróun mála. Lengst í því gengur þó formaður sjálfstæðisflokksins sem mætir ýmist einn í stjórnarmyndunarviðræðurnar eða með aðstoðarmann sinn með sér. Þingmenn flokksins virðast lítið sem ekkert vita umfram það sem fram kemur í fréttum og geta illa leynt óánægju sinni. Sjálfur er Bjarni hættur að mæta í viðtöl vegna málsins og lætur þau eftir formönnum hinna flokkanna tveggja.
Ekki er að merkja almenna ánægju meðal almennings með væntanlega ríkisstjórn þeirra frænda Bjarna og Benedikts. Þvert á móti virðist eiginlega enginn vera ánægður og hvergi sjáanleg merki um að nokkur maður sé að biðja um þá ríkisstjórn sem verið er að berja saman. Það er vel merkjanleg ólund bæði meðal stjórnmálamanna og almennings um málið.
Þetta verður ólundarstjórn ef af verður.