Heillaskref í menntamálum

Í mars 2009 skrifaði Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálráðherra, undir samkomulag um byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Áður en til þess kom höfðu menntamálaráðherrar sjálfstæðisflokksins í röðum gengið á bak orða sinna um stofnun skólans. Síðasti menntamálaráðherra sjálfstæðisflokksins gerði svo tilraun til að leggja hann niður sem slíkan en var stöðvaður af heimamönnum. Það var því ekki þrautalaust að koma skólanum á fæturna og það þurfti að hafa fyrir hverju skrefi, jafnvel að fá heiti skólans staðfest.
Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) hefur síðan vaxið og eflst hraðar og meir en nokkur þorði að vona. Stjórnendur skólans hafa óhræddir farið ótroðnar slóðir í kennsluháttum og námsbrautum sem vakið hafa athygli og öðlast viðurkenningar. Nú síðast veittu evrópsk samtök um upplýsingatækni Láru Stefánsdóttur, skólameistara MTR, sérstaka viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf á þessu sviði.
Það var mikið heillaskref fyrir skólastarf á landsbyggðunum að Katrín Jakobsdóttir tók það skref í miðri kreppunni að setja þennan skóla á laggirnar. Með því sýndi hún fram á þann mikla mun sem er á afstöðu stjórnmálamanna og flokka til menntamála.
Sá munur er enn til staðar.