Alveg þess virði

Fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram á Alþingi í dag. Frumvarpið er skilgetið pólitískt afkvæmi sjálfstæðisflokks og framsóknar og endurspeglar áherslur þeirra flokka varðandi rekstur ríkisins í velferðar -, heilbrigðis- og menntamálum, samgöngumálum og innviðauppbyggingu. Fjárlagafrumvarpinu fylgja síðan frumvörp um tekjuöflun ríkisins til næstu ára, þ.m.t. um afnám þrepaskipts tekjuskattskerfis.
Sjálfstæðisflokkur og framsókn hafa hins vegar ekki nægilega marga þingmenn til að tryggja þessum hjartans málum sínum öruggan framgang í þinginu. En það ætti ekki að þurfa að þvælast mikið fyrir þeim enda eru margir úr hópi nýrra þingmanna annarra flokka þeim sammála um þessi stóru mál ef marka má stefnuskrá þeirra.
Eina sem getur komið í veg fyrir þetta er að mynduð verði ríkisstjórn sem leggur áherslu á að tryggja örugga fjármögnun velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfisins og annarra grunnþátta samfélagsins.
Það væri nú alveg þess virði.