DAC stefnan í umhverfis- og náttúruverndarmálum

Stærstu verkefni samtímans snúa að umhverfismálum og náttúruvernd. Hvað stefnu hafa DAC- flokkarnir í þessum málaflokkum?
Sjálfstæðisflokkurinn vill móta stefnu í umhverfismálum sem virki ábyrgð einstaklingsins og leggur áherslu á að nýting náttúruauðlinda Íslands sé best tryggð í höndum einkaaðila. Flokkurinn vill virða eignar- og nýtingarréttinn á náttúru landsins og leggst gegn þjóðnýtingu í almannaþágu á auðlindum, gangi það gegn réttindum einstaklinga. Sjálfstæðisflokkurinn vill náttúruvernd á forsendum einkaframtaksins og vill heimila einkaaðilum gjaldtöku að náttúru landsins en leggst gegn gistináttagjaldi og sambærilegum heildstæðum leiðum við gjaldtöku.
Viðreisn vill auka vægi einstaklinga og fyrirtækja í nýtingu opinberra auðlinda. Flokkurinn vill taka tillit til sjónarmiða náttúruverndar á forsendum samkeppnissjónarmiða með það að markmiði að auka hagsæld. Viðreisn vill taka upp markaðsgjald fyrir nýtingu á auðlindum í almannaeigu og telur að með því móti verði meiri hagsmunum aldrei fórnað fyrir minni við nýtingu umhverfis og auðlinda.
Björt framtíð á litla samleið með hinum flokkunum tveimur í umhverfismálum ef marka má samþykkta stefnu flokksins fyrir utan almennt um gildi náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar.
Í stuttu máli: Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn (28 þingmenn) vilja auka vægi einkaaðila í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þeir telja að nýtingu náttúruauðlinda sé betur komið í höndum einkaaðila en ríkisins.

Ekki lofar þetta nú góðu.