Kjósum gegn sérhagsmunum

„Það er dapurlegt að horfa upp á það, aftur og aftur, að það virðist auðveldara að standa vörð um sérhagsmuni á Alþingi heldur en almannahagsmuni og því full ástæða til að skora á frambjóðenda til Alþingis að gefa þessu gaum og hvetja þá sem síðan setjast á þing í framhaldinu til að breyta þessu.“
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ

Mikil átök hafa orðið á vinnumarkaðinum allt þetta kjörtímabil. Um tíma var heilbrigðiskerfið meira og minna lamað vegna átaka milli launafólks og stjórnvalda. Og enn er allt í uppnámi og stefnir í hörð átök og launafólk býr sig undir átök á vinnumarkaðinum. Sjómenn stefna í verkfall eftir að hafa verið samningslausir í sex ár. Kennarar felldu kjarasamning og þeirra mál eru enn í lausu lofti. Fjármálaráðherra klúðraði svo samkomulagi um jöfnun lífeyrisréttinda með illa unnu frumvarpi sem hann þurfti síðan að draga til baka.
Ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar hefur kosið að standa vörð um sérhagsmuni frekar en hagsmuni almennings. Það eiga stjórnmálamenn ekki að gera. Þess vegna er mjög brýnt að kjósendur sendi báðum stjórnarflokkunum skýr skilaboð um að spilling og sérhagsmunagæsla verði ekki liðin.