Þetta er aumt

Íslendingar eiga heimsmet í að fela peninga í skattaskjólum. Hvergi á byggðu bóli finnast hlutfallslega jafn margir spilltir stjórnmála- og viðskiptamenn en á Íslandi.
Í nýjum upplýsingum sem Reykjavik Media birti í gær úr Panamaskjölunum kemur fram að mikill fjöldi einstaklinga sem hefur m.a. hagnast á því að nýta fiskistofnana við landið hefur komið peningum sínum í skattaskjól. Þeir hafa frekar kosið að gera það en að taka þátt í að byggja upp velferðarsamfélag í heimalandi sínu, Íslandi.
Það er þeim til ævarandi skammar.
„Þetta er bara mitt mál,“ segir einn þeirra.
„Þá er maður kominn í vinnu fyrir hið opinbera,“ sagði annar sem grét yfir því að þurfa að greiða skatta og gjöld til heimalandsins og flúði því með allt sitt til Tortóla.
„Ætli ég hafi ekki tapað svona 200 milljónum á hruninu,“ var afsökunin sem einn gaf upp fyrir skattaskjólinu sínu.
„Mér finnst þér ekkert koma þetta við. Ég ætla bara að eiga þetta allt fyrir mig,“ sagði svo annar og finnst engum koma það við þótt hann laumi peningum sínum undan íslenskri lögsögu.
„Félagið fór svo í hruninu og við töpuðum því fé sem við áttum inni í því,“ gefur ein upp sem afsökun.
„Við ætluðum að sigra heiminn en það gekk ekki eftir. Þetta fór lóðbeint á hausinn í hruninu,“ segir svo einn til viðbótar og grætur það að hafa ekki getað haldið áfram að ávaxta sitt pund á Tortóla.

Þetta er aumt.
Það er engin afsökun gild fyrir því að koma peningum sínum undan lögsögu heimalands í skattaskjól. Skattaskjólin eru í eðli sínu vond og tilgangurinn með því að fela peninga þar er þ.a.l. vondur. Þeir sem það gera eru að fara á bak við samfélagið sem þeir búa í. Þeir eru að svíkja samborgara sína. Með því að fela peninga í skattaskjólum er fólk að grafa undan velferð í heimalandi sínu, ýta undir ójöfnuð í heiminum öllum og taka þátt í viðskiptum sem þrífast aðeins í myrkustu afkimum undirheima fjármálalífsins.
Svo einfalt er nú það.