Það skiptir máli að taka afstöðu

Það er óvenjulegt að kosið sé á miðju hausti líkt og nú. En það er ástæða fyrir því. Ríkisstjórn hægriflokkanna undir forystu framsóknarflokksins féll vegna spillingar. Þess vegna verður kosið í lok október. Ráðherrar hennar né þinglið voru þó alls ekki á því að fara frá á sínum tíma. Á endanum voru þau svo hrakin frá völdum sem fyrst og síðast má þakka þingliði Vinstri grænna sem tók strax mjög ákveðna afstöðu gegn spillingunni og krafðist viðbragða.
Það vakti athygli að í umræðum um störf þingsins daginn eftir að eiginkona þáverandi forsætisráðherra viðurkenndi að þau hjónin höfðu falið peningana sína á Tortóla, voru það aðeins þingmenn Vinstri grænna sem tóku málið upp. Aðrir komu sér undan því og gáfu ýmsar ástæður fyrir því. Þess í stað kusu þingmenn að ræða um alls óskyld mál, t.d um vexti, hagtölur Hagstofunnar, Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndina, búvörusamninga, ferðaþjónustuna, Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndina, lengd kjörtímabilsins, fæðingarorlof, staðsetningu nýs Landsspítala, aftur um nýjan Landspítala, laun lögreglumanna, rannsóknarskýrslu Alþingis. Forseti Alþingis harmaði svo í lokin eina ræðuna sem snéri að Tortólumálum forsætisráðherrahjónanna. Í kjölfarið misstu svo framsóknarmenn (og fleiri) algjörlega stjórn á sér.
Það er merkilegt í ljósi þess hvað stórt þetta mál var að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu hafi ekki treyst sér til að taka strax fast á málinu.
Aðalmálið er samt að spilltri ríkisstjórn var komið frá völdum. Það má þakka Vinstri grænum umfram aðra.
Það skiptir máli að taka afstöðu.