Varúð til hægri!

Einum ævintýralegasta aðdraganda að formannskjöri á síðari árum lauk með því að sitjandi formaður framsóknarflokksins var felldur. Fyrir stjórnmálin í heild sinni er það ágætt. Fyrir framsóknarflokkinn hljóta úrslitin að teljast afbragðsgóð. En best þó af öllu eru úrslitin þeim sem vilja herða tök hægriflokkanna á landstjórninni.
Pólitíska landslagið hefur breyst verulega í dag og möguleikar á myndun ríkisstjórnar eftir kosningar hafa einnig skýrst með sigri Sigurðar Inga. Nú er það enn líklegra en áður að ríkisstjórn framsóknar og sjálfstæðisflokks lifi af hremmingarnar, ef ekki óbreytt þá með stuðningi Viðreisnar ef á þarf að halda. Í stað trausti rúins formanns framsóknarflokksins sem enginn hefði viljað eiga í samstarfi við er nú kominn gamaldags litlaus framsóknarmaður sem mun ekki verða sjálfstæðisflokknum mikil þraut í samstarfi.
Þetta er áhyggjuefni sem kjósendur ættu að velta vel fyrir sér.