Meiri samstaða um sjávarútveg en flestir halda

Stefán Gunnlaugsson, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, var með ágæta umfjöllun í skólanum sl. föstudag um reynsluna af veiðigjöldum í sjávarútvegi hér á landi. Stefán, sem þekkir málið vel mjög vel, fór yfir sögu veiðigjalds í sjávarútvegi og útlistaði vel ágalla sem upp hafa komið á því sem satt best að segja eru ekki mjög stórir eða erfiðir úrlausnar.
Fyrirlestur Stefáns vakti mig til umhugsunar um þann árangur sem náðst hefur í umræðunni um þessi mál á undanförnum árum. Við ræðum ekki lengur  hvort sjávarútvegurinn eigi að greiða auðlindagjald eða ekki. Um það eru, held ég, allir sammála. Umræðan snýst nú öðru fremur um útfærslur og tæknileg atriði við álagningu gjaldsins.
Jón Bjarnason sjávárútvegsráðherra skipaði  starfshóp um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða á síðasta kjörtímabili sem gekk undir nafninu sáttanefndin. Niðurstaða þessa hóps var býsna merkileg í ljósi þess að í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi auk hagsmunaaðila frá öllum hliðum málsins.
Niðurstaðan er í stórum dráttum þessi:
„Meirihluti starfshópsins telur að með tilliti til settra markmiða og kröfu um jafnræði og meðalhóf sé rétt að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið með sjálfstæðri löggjöf sem taki hliðsjón af auðlindastefnu almennt er byggist á hugmyndum um samningaleið. Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.“ (bls. 13)
Með öðrum orðum: Ríkið sem eigandi auðlindarinnar úthlutar aflaheimildum gegn gjaldi.
Þetta er niðurstaða mikils meirihluta starfshópsins, þ.m.t. hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka. Menn geta tæplega hlaupið frá því núna þó styttist í kosningar – eða hvað?
Við erum sem sagt ekki lengur að rífast um formið heldur útfærsluna.
Það er nú eitthvað!