Stórt mál sem verður að ræða vel

Fjármálaráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um jöfnun lífeyrisréttinda, þ.e. að réttindi opinberra launþega og launþega á almenna vinnumarkaðinum verði jöfn. Þetta er gert í kjölfar samkomulags á milli stéttarfélaga opinberra starfsmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Að þessu hefur verið unnið í mörg ár og markmiðið sem slíkt gott. Í stuttu máli er það þannig að opinberir starfsmenn hafa haft tryggari lífeyrisréttindi en aðrir en á móti hafa laun þeirra verið lægri en annars. Til að jafna lífeyrisréttindi þeirra við réttindi annarra verða þeir því að afsala sér ákveðnum rétti gegn því að laun þeirra verði hækkuð til móts við skerðinguna auk þess sem lífeyristökualdur verður hækkað úr 65 í 67 ár. Þetta er auðvitað dálítil einföldun en í grófum dráttum samt svona.
Gallinn við samkomulagið sem liggur til grundvallar lagafrumvarpi fjármálaráðherrans er að það er óljóst, svo ekki sé meira sagt, hvernig á að bæta opinberu starfsmönnunum upp skerðinguna eða hvað það muni kosta. Fjármálaráðuneytið segir í svari til Kjarnans um málið að launa­sam­an­burður milli opin­bera og almenna mark­að­ar­ins sé ill­mögu­legur vegna þess að mark­að­irnir séu ólíkir á ýmsan hátt. Því þurfi að vinna málið „á betri for­sendum og ræð­ast frekar á milli aðila.“ M.ö.o það er enn óljóst  hvernig eigi að bæta þeim í launum sem verða fyrir skerðingu á lífeyrisréttindum og óljóst hvað það kostar mikið.
Það virðist stefnt að því að taka áratug í að jafna réttindin og þá með launahækkunum umfram aðra launþega í kjarasamningum. Sjáið þið fyrir ykkur að það gerist að laun opinberra starfsmanna hækki umfram aðra í kjarasamningum næsta áratuginn? Ég er ekki viss um að það muni ganga eftir og er reyndar mjög efins um það.
Hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt mál að ræða sem þarfnast mikillar umræðu og skoðunar í samfélaginu. Það væri mikið óráð að ætla að keyra mál af þessari stærðargráðu í gegnum þingið á þeim fimm dögum sem eftir eru. Ég ætla að vona að engum nema fjármálaráðherra detti það í hug.
Alþingi er í hlutverki launagreiðandans í þessu máli en þarf jafnframt að verja hagsmuni launþega.
Vonandi átta þingmenn sig á því.