Látum þá axla ábyrgðina þann 29. október!

Sigurður Ingi Jóhannsson (framsókn), þáverandi atvinnuvegaráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (sjálfstæðisflokkur) skrifuðu undir nýjan búvörusamning við bændur í febrúar á þessu ári. Eftir að Sigurður Ingi tók að sér hlutverk forsætisráðherra kom það í hlut Gunnars Braga Sveinssonar, nýs atvinnuvegaráðherra (framsókn), að búa samninginn til þinglegrar meðferðar. Í þinginu var Jóni Gunnarssyni, formanni atvinnuveganefndar (sjálfstæðisflokkurinn), falið að keyra málið í gegn sem hann gerði skammlaust. Það voru sem sagt tveir stjórnmálaflokkar sem komu að málinu fyrir hönd ríkisins, framsókn og sjálfstæðisflokkur. Aðrir flokkar gagnrýndu samninginn og gerðu ýmsar tillögur til breytinga á honum sem féllu fyrir atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna.
Stjórnarandstaðan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir það að stjórnarliðar staðfestu búvörusamninginn í vikunni. Fjölmiðlar hafa sagt stjórnarandstöðunni að skammast sín fyrir málið og jafnvel hvatt kjósendur sína til að kjósa ekki þessa flokka, nema þá Bjarta framtíð. Ég hef ekki séð þá hvetja fólk til að taka afstöðu til stjórnarflokkanna vegna þessa máls. Almenningur virðist einnig vera á sömu skoðun, virðist jafnvel vera að stilla sér upp við hlið grimmra hagsmunaaðila sem vilja engan stuðning við matvælaframleiðslu í landinu. Það er sannarlega óvænt afstaða.
Það má margt segja um þá búvörusamninga sem Alþingi staðfesti á dögunum og margt er þar gagnrýnivert. En það er arfavitlaust að kenna Vinstri grænum um þá. Eða Samfylkingunni, Pírötum eða Bjartri framtíð. Ábyrgðin liggur öll hjá hagsmunagæsluflokkunum tveimur, sjálfstæðisflokki og framsókn.
Er ekki tilvalið að láta þá axla ábyrgðina þann 29. október.

Myndin hér að ofan er af launa-, hlunninda- og bónusgreiðslum stjórnenda Haga sem hafa tekið drjúgan hlut afurðaverðs til neytenda til sín á kostnað bænda.