Pólitísk mistök Bjarna Benediktssonar

Haustkosningar eru ekki algengar á Íslandi. Fyrir því eru aðallega praktískar ástæður s.s. vinna við fjárlög næsta árs og fleiri slík mál. Það þarf þó ekki að vera verra að kjósa að hausti til, svo framarlega sem ekki er farið langt inn í haustið. Ný ríkisstjórn í haustbyrjun hefur tækifæri til þess að láta strax til sín taka í veigamiklum málum m.a. í gegnum fjárlög og breytingar á skattalögum næsta árs sem hún hefur síður í sumarbyrjun. Allt er þetta þó háð því hversu burðugur hópur það er sem tekur við stjórn landsins hverju sinni. Almennt séð er ekki tilefni til að hafa miklar áhyggjur af þessu að mínu mati.
Það er rétt að halda því til haga að það er ekki að kröfu stjórnarandstöðunnar að kosið verður í haust. Stjórnarandstaðan vildi að kosið yrði síðastliðið vor en stjórnarliðar ekki. Þeir sömdu sín á milli um haustkosningu.
Miðað við það hvernig staðan í stjórnmálunum er að teiknast upp þessa dagana hef ég grun um að sá sem sér mest eftir því að hafa ekki fallist á kosningar í vor sé formaður sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson. Hann fer nú með sjálfstæðisflokkinn mjög laskaðan í kosningar og mun að öllum líkindum uppskera eina verstu kosningu flokksins frá upphafi.
Hann gaf Viðreisn færi á að vaxa út úr flokknum sem fullburða stjórnmálaflokkur.
​Sjálfstæðisflokkurinn mun seint fyrirgefa Bjarna það.

Mynd: Pressphoto.biz