Íslendingar óheppnir með stjórnmálamenn

Forsætisráðherra segir að til standi að banna fólki að taka verðtryggð húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára. Ráðherrann vill einnig haga málum þannig að fólk verði búið að greiða upp húsnæðislán sín áður en það kemst á lífeyrisaldur. Hann er að tala um að stytta tímann sem fólk hefur til að greiða af íbúðarhúsnæði sínu.
Forsætisráðherra og ríkisstjórnin hans treystir fólki ekki til að velja það lánaform sem því hentar best. Þau vilja herða greiðslubyrði almennings með hávaxtalánum til skamms tíma og gera ungu fólki svo til ómögulegt að kaupa eigið húsnæði.
Vertryggð lán eru ekki vandamál. Verðtryggð lán til langs tíma eru heldur ekki vandamál. Vandamálið er viðvarandi efnahagsleg óstjórn, ónýtur gjaldmiðill, endalausar skammtímareddingar í efnahagsmálum og skortur á framtíðarsýn. Vandamálið er stjórnmálamenn sem ýmist þora ekki, vilja ekki eða geta ekki tekið á rótum vandans.
Íslendingar hafa að þessu leyti verið einstaklega óheppnir með stjórnmálamenn í gegnum tíðina.
Sérstaklega þó framsóknarmenn.