Veiðigjöld

“Eins og við erum með þetta Íslendingar þá er útgerðin rukkuð um veiðigjald sem að ég held að sé mun hentugri kostur til að rukka fyrir aðgang að auðlindinni heldur en uppboðsleið.”
Jens Garðar Helgason formaður SFS

Eitt stærsta átakamál síðasta kjörtímabils var um veiðigjöld. Útgerðarmenn mótmæltu þá undir merkjum LÍÚ gjöldunum af miklu afli, stóðu fyrir mikilli fundar- og áróðursherferð gegn þeim undir yfirskriftinni „Hvað höfum við gert ykkur?“. Dregin var upp afar svört mynd af áhrifum veiðigjaldanna. Landsbyggðirnar áttu að hrynja. Flotinn átti að ryðga í sundur. Hafnirnar áttu að grotna niður. Mótmælt var á Austurvelli. Sumir óttuðust um börnin sín.
Nú er búið að snúa öllu á hvolf aftur. Formaður SFS sem áður mótmælti veiðigjöldum segir nú að  veiðigjöld séu mun hentugri kostur en uppboðsleið að hætti Færeyinga.   
Með framgöngu sinni og afstöðu gegn veiðigjöldum á sínum tíma má segja að þessir aðilar hafi nánast dæmt sig úr leik um þetta mikilvæga mál. Því miður þar sem best hefði farið á því að leysa þetta mál í samvinnu aðila eins og oftast nær.
Það verður væntanlega ekki gert úr þessu.
​Því miður.