Fimm ár frá Útey

Í dag 22. júlí eru fimm ár síðan Norðmaðurinn Anders Behring Breivik drap 77 manns í Ósló og Útey í Noregi, þar af fjölmörg börn og unglinga. Norðmenn, eins og reyndar flestir aðrir Vesturlandabúar, voru felmtri slegnir yfir þessu ömurlega ódæði sem enn er óskiljanlegt með öllu.
Anders Breivik framdi hræðilegan glæp sem aðstandendur fórnarlamba hans sem og norska þjóðin öll munu líklega seint gleyma eða fyrirgefa. En viðbrögð Norðmanna  sem þjóðar við þessum óhugnaði voru til fyrirmyndar og einkenndust að mestu af yfirvegun og rökstuddum ákvörðunum. Í stað ofsafenginna viðbragða sem svo auðvelt og hefðbundið er að grípa til við slíkar aðstæður, stóðu þeir vörð um réttarríkið og létu ekki brjálæðing úr hópi landa sinna leiða sig út af brautinni.
Norska þjóðin var og er sterkari en það.