Staðreyndir um Vaðlaheiðargöng

Það þyrmir stundum yfir mann vegna þess hvað sumir stjórnmálamenn komast upp með að segja án þess að þurfa að færa rök fyrir máli sínu. Einn slíkur er Vigdís Hauksdóttir, þingmaður framsóknarflokksins. Í viðtali við hana á dögunum tekur hún gerð Vaðlaheiðarganga sem gott dæmi um kjördæmapot sem hún telur af hinu vonda. Hún segir að vaðið hafi verið í gerð ganganna án þess að rannsóknir lægju til grundvallar og enginn geti nú sagt um hversu mikið verkefnið fari fram úr fjárheimildum!
Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:
1. Það eru engar fjárheimildir til Vaðlaheiðarganga á fjárlögum. Gerð ganganna getur þess vegna eðlilega ekki fara fram úr fjárheimildum sem ekki eru fyrir hendi.
Formlegur undirbúningur að gerð ganganna hófst árið 1990 eða fyrir um aldarfjórðungi.
2. Gerð ganga undir Vaðlaheiði hefur verið rædd á Alþingi allt frá árinu 2004 (jafnvel fyrr) og ákvörðun um gerð þeirra samþykkt einum rómi á þinginu við afgreiðslu samgönguáætlunar 2008. Eftir það kom málið oft til umræðu og afgreiðslu í nefndum þingsins og síðan til endanlegrar afgreiðslu um mitt ár 2012 þegar Alþingi samþykkti að lána fé til verkefnisins. Þingmenn og ráðherrar úr öllum flokkum og öllum kjördæmum hafa komið að málinu og stutt það með einum eða öðrum hætti.
Það er hægt að hafa langt mál um undirbúning að framkvæmdum við gerð ganga undir Vaðlaheiði. Allt stenst það skoðun og er varðað ákvörðunum sem teknar voru að vel athuguðu máli jafnt á Alþingi sem utan þess þvert á pólitískar línur og kjördæmamörk. Um það má m.a. lesa hér.
Allt tal um annað stenst enga skoðun.