Gagnslítið þjóðhagsráð

Þjóðhagsráð var sett á laggirnar að til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Það er skipað ráðherrum ríkisstjórnarinnar, fulltrúa atvinnurekenda, aðila frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og svo bankastjóra Seðlabanka Íslands. Þannig skipað þjóðhagsráð er í besta falli gagnslaust með öllu og líklegra til að verða til tjóns en hitt. Frásögn af fyrsta fundi þjóðhagsráðs ber vitni um það.
Þjóðhagsráð þarf að geta metið stefnu og afleiðingar stefnu stjórnvalda á hlutlausan hátt. Þjóðhagsráð þarf að geta lagt mat á stöðu efnahagsmála og horfur með trúverðugum hætti og ráðlagt stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins og almenningi út frá því. Ráðherrar ríkisstjórna hverju sinni eru ekki líklegir til slíkra verka frekar en aðrir sem eiga beinna hagsmuna að gæta. Frá þeirra sjónarhóli eru eigin verk hafin yfir vafa og framtíðarhorfur í efnahagsmálum metnar á pólitískri mælistiku sem er til lítils gagns. Því leiðir seta þeirra í þjóðhagsráði ein og sér til þess að ónýta verkefnin sem ráðinu er ætlað að sinna.
Seðlabankinn hefur það meginhlutverk að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hverju sinni. Þess vegna er seta bankastjóra Seðlabankans í þjóðhagsráði við hliðina á ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki til að auka trúðverðugleika ráðsins.
Fulltrúar atvinnurekenda og sveitarfélaga (sem atvinnurekanda) hafa þröngra sérhagsmuna að gæta og því ólíklegir, svo ekki sé nú meira sagt, til gagns á þessum vettvangi.
Það var og er enn gott færi á því að fara nýjar leiðir við skipan þjóðhagsráðs, t.d. með því að fá til þess verks innlenda sem erlenda fræðimenn á sviði efnahagsmála sem ekki eru háðir stjórnmálum eða hagsmunaaðilum.
Stjórnmálamenn verða og þurfa að þola gagnrýni á eigin verk og stefnur og færa fyrir þeim pólitísk sem fagleg rök. Það er engrar gagnrýni eða athugasemda að vænta frá þjóðhagsráði eins og það er skipað í dag.
Skipan þjóðhagsráðs er því miður enn eitt dæmið um það að okkur sem þjóð er ekki að takast nægilega vel að hefja okkur upp úr meðalmennskunni og þröngri pólitískri hagsmunagæslu.
Sem er alls ekki gott.