Eigum við að borga fyrir að láta svindla á okkur!

"… það er alveg ljóst að það eru engir sjóðir í félaginu sem hægt er að ganga í þannig að svona sektir, hvort sem það eru 100 milljónir, 1.000 milljónir eða 2.000 milljónir koma bara frá einum stað. Úr vösum neytenda.“

Mjólkursamsalan er í eigu rúmlega 650 kúabænda um land allt. Forstjóri þess heitir Ari Edwald. Fyrirtækið hefur verið sektað fyrir gróf samkeppnisbrot og var gert að greiða 480 milljónir vegna þess. Þetta þýðir að fyrirtækið hefur brotið gegn neytendum í landinu. Það hefur orðið uppvíst að því að svindla á venjulegu fólki, fjölskyldum og heimilum í landinu.
Samkvæmt yfirlýsingu Ara forstjóra ætlar hann að láta neytendurna, heimilin í landinu, borga sektina. Með öðrum orðum ætlar hann að láta þá borga sem hann svindlaði á.
Það er sanngjörn krafa okkar neytenda að forstjóri Mjólkursamsölunnar biðjist afsökunar á framferði fyrirtækisins gagnvart okkur. Það ætti hann að gera um leið og hann axlar lágmarks ábyrgð og tilkynnir um afsögn sína sem forstjóri fyrirtækisins.
Eigendurnir ættu svo að hugsa sinn gang.