Stjórnmálamenn gegn rasisma!

"Óskaplega væri það vel til fundið. Úthýsa öllum rasistum, um leið og þeir opinbera sig, og fastsetja það í stefnur allra flokka, að rasismi verði ekki liðinn, eða eitthvað form andúðar á útlendingum yfir höfuð. Ekkert pláss verði fyrir þessi sjónarmið hjá neinum stjórnmálaflokki.“

Þannig skrifaði Magnús Halldórsson, ritstjóri Kjarnans, á Facebook síðu sína í gærkvöldi og beindi orðum sínum til íslenskra stjórnmálamanna og flokka nú í aðdraganda kosninga.
Þetta er afar góð hugmynd og líkt og gjarnan er með góðar hugmyndir er auðvelt að koma þeim í framkvæmd. Fyrirmyndin er þekkt t.d. úr íþróttum þar sem flest ef ekki öll stærstu samtök íþróttamanna og íþróttafélaga heims ásamt þekktu íþróttafólki hafa tekið sig saman um einmitt þetta – að útrýma rasisma í íþróttum. Það hefur borið árangur.
Af hverju ættu stjórnmálamenn úr öllum flokkum ekki að geta gert slíkt hið sama?
Hvers vegna ættu þeir ekki að vilja það?
Hvernig væri að láta reyna á það?