Gleðilega hátíð sjómenn!

Sjómannadagurinn vekur upp margar góðar minningar. Ein er sú þegar pabbi bað mig, þá 10-12 ára gamlan, að koma með sér í sjómannadagsmessu í Ólafsfirði. Sem ég auðvitað gerði. Messan var örugglega hefðbundin í alla staða, man það ekki. Ég man hins vegar að pabbi missti höfuðið ýmist fram á bringu, út á hlið eða aftur allan tímann sökum syfju og þreytu. Hann hafði komið í land fyrr um nóttina. Ég mátti ýta reglulega í hann til að reyna að halda honum vakandi en það dugði skammt. Mér var ekki skemmt fyrr en löngu seinna. Sennilega var svipað ásigkomulag á fleiri sjómönnum þennan sunnudagsmorgun í kirkjunni í Ólafsfirði. Þeir voru hressari síðar um kvöldið ef ég man rétt.
Í dag, þegar sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur, má minnast þess að sjómenn hafa ævinlega þurft að sækja rétt sinn og kjarabætur með átökum. Það mun ekkert breytast. Nú hafa sjómenn verið kjarasamningslausir í sex ár, hvorki meira né minna. Þessi sex ár hafa verið gjöfulustu ár íslenskrar útgerðarsögu og fært útgerðum meiri ágóða en áður eru dæmi um í útgerðarsögu landsins. Samt vilja þeir ekki semja við sjómenn.
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar á sjómannadaginn.

Myndin hér að ofan birtist á forsíðu Alþýðublaðsins í mars 1960 og er tekin af pabba mínum þá 36 ára gömlum við netaveiðar í Breiðafirði.