Annað er mönnum ekki sæmandi

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur skrifað grein til stuðnings forsetaframboði Davíðs Oddssonar undir yfirskriftinni „Að sýna sjálfum sér virðingu.“ Jón Steinar lýsir í greininni þeirri skoðun sinna að vel fari á því að Davíð ljúki ferli sínum á Bessastöðum og skorar „… á eldri sem yngri kjósendur við forsetakjörið að gerast ekki fórnarlömb einhliða áróðurs og illmælgi þegar þeir taka afstöðu, heldur sýna sjálfum sér þá virðingu að kynna sér og rifja upp sannleikann um feril þessa manns áður en þeir taka afstöðu. Annað er mönnum ekki sæmandi.“
Þetta er algjörlega hárrétt hjá Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Fólk á ekki að trúa hverju sem er gagnrýnislaust. Reyndar hefur fólk enga afsökun í dag til að taka afstöðu til mála nema að athuguðu máli enda afar auðvelt að afla sér upplýsinga um nánast hvað sem er. Í þessu tilfelli væri t.d. rakið fyrir kjósendur að „… sýna sjálfum sér þá virðingu að kynna sér og rifja upp sannleikann um feril þessa manns …“ með því að skoða skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna þar sem nafn frambjóðandans kemur 284 sinnum fram af ýmsu tilefni. Þar er „… sannleikurinn um feril þessa manns …“ skráður all ýtarlega þótt sjálfsagt megi fylla betur í eyðurnar eins og gengur og gerist.
Með þessu myndu kjósendur ekki aðeins sýna sjálfum sér virðingu heldur og miklu frekar frambjóðandanum sjálfum.

Annað er mönnum ekki sæmandi.